Eldklerkurinn

Séra Jón Steingrímsson varð prestur á Prestsbakka á Síðu árið 1778 og þjónaði kirkjunni á Kirkjubæjarklaustri í Móðuharðindunum. Hann var mikill trúmaður, en hafði einnig mikinn áhuga á náttúru-  og læknisfræði, sérstaklega notkun jurta til lækninga, en þeirrar þekkingar hafði hann aflað sér með þýðingu á nýjum þýskum fræðiritum. Hann var óþreytandi að lækna og líkna í Móðuharðindunum. Sjálfsævisaga hans er ein af þeim merkustu, sem hefur verið rituð á Íslandi.  Sama má segja um Eldritið, sem er einstök frásögn af hamförum Skaftárelda, Þar segir hann frá athugunum sínum og niðurstöðum, sem öðrum vísindamönnum urðu ekki ljósar fyrr en löngu síðar.

Séra Jón var álitinn hafa gert kraftaverk sunnudaginn 20. júlí 1783.  Kvísl úr hraunflóðinu hafði þá stefnt á kirkjuna á Kirkjubæjarklaustri. Engu að síður kom söfnuðurinn til messu hjá honum í kirkjuna þann dag, þar sem hann bað heitt um hjálp guðs.  Að messu lokinni fór söfnuðurinn með honum að skoða eldflóðið í farvegi Skaftár og var það þá á sama stað og fyrir messuna. Að sjálfsögðu þakkaði hann guði fyrir, en lýsti því engu að síður með nákvæmni vísindamannsins hvernig það gerðist.  Hraunið hafði áður stíflað árnar úr Síðuheiðunum og myndað stór lón við hraunjaðarinn.  Á meðan messan stóð hafði vatnið ruðst fram og yfir hrauntangann og þannig kælt hraunið, svo að rennsli þess stöðvaðist.  Síðan hefur messan verið kölluð Eldmessa og sr. Jón Eldprestur.