Skaftáreldar

„Árið 1783 þann 8. júní, sem var hvítasunnuhátíð, í heiðríku og spöku veðri um dagmálabil, kom upp fyrir norðan næstu byggðafjöll á Síðunni svart sandmistur og mokkur svo stór, að hann á stuttum tíma breiddi sig yfir alla Síðuna“.  Þannig byrjar sr. Jón Steingrímsson lýsingu í Eldriti sínu á Skaftáreldum, stærsta hraungosi, sem samtímaheimildir eru til um.  Hraunið þakti um 600 ferkílómetra, þegar gosinu lauk alveg   7.febr.1784.  Það hafði þá farið yfir eða gert óbúandi á 20 bæjum og frá öðrum 30 flúði fólk um skeið.

Í gosinu opnaðist 25 km. löng gígaröð báðum megin við Laka og rann hraunið þaðan í tveim kvíslum.  Sú vestri fór fyrst niður farveg Skaftár og flæmdist síðan með miklum hraða um sléttlendið langleiðina til sjávar.  Í byrjun ágúst ruddist eystri álman niður farveg Hverfisfljóts og greip þá ótti íbúana um að það mundi lokast inni og ýtti undir flótta þess.